Um skólann

Stekkjaskóli 

Stekkjaskóli er nýr grunnskóli í Sveitarfélaginu Árborg. Skólinn tók til starfa skólaárið 2021-2022 og er því á sínu þriðja starfsári. Frístundaheimilið Bjarkarból er tengd stofnun og rekið af fjölskyldusviði sveitarfélagsins. Við skólann starfa rúmlega 50 starfsmenn og nemendur eru samtals 233,  í 1. - 6. bekk. 

Skólahúsnæði

Stekkjaskóli er við Heiðarstekk 10 á Selfossi. Kennsla nemenda fer fram í 1. áfanga í nýju og glæsilegu húsnæði skólans. Hver árgangur á sitt heimasvæði en nemendur í 5. og 6. árgangi eru með sitt heimasvæði í tilvonandi frístundarýmum skólans. Frístundaheimilið Bjarkarból nýtir færanlegar kennslustofur við skólann.  

Nemendur í 1. og 2. bekk fá kennslu í íþróttum í hátíðarsal skólans og nærumhverfi (útinám). Nemendur í 3. - 6. bekk fá kennslu í íþróttum í íþróttahúsi Vallaskóla við Sólvelli 1x í viku ásamt því að nota hátíðarsal og nærumhverfi. Nemendur fara með rútu á milli starfsstöðva. Öll sundkennsla fer fram í Sundshöll Selfoss og fara nemendur með rútu á milli starfsstöðva. 

Áður en starfsemi skólans flutti í sitt eigið húsnæði í lok mars 2023 hafði starfsemin farið fram  í frístundaheimilinu Bifröst við Vallaskóla fyrstu 4 mánuðina og síðan í færanlegum kennslustofum að Heiðarstekk 10. 

Áætlað er að 2. áfangi skólans verði tilbúinn á haustmánuðum 2024. 

 

Opnunartími

Skólinn opnar kl.7:50 á morgnana. Nemendur  geta farið inn á sitt heimasvæði, lesið, lært eða verið í rólegum leikjum þar til kennsla hefst.  

Skrifstofa skólans opnar kl. 7:40 og er opin til kl. 14:30. Símanúmer skólans er 480-1600. Á heimasíðu skólans https://stekkjaskoli.is/ eru allar helstu upplýsingar um skólann og skólastarfið.  

 

Forföll nemenda

Tekið er við upplýsingum um veikindi og önnur forföll nemenda frá kl. 7:40 í síma 480-1600, dag hvern. Forráðamenn geta einnig tilkynnt veikindi í gegnum Mentor.  

Foreldrum/forráðamönnum ber að láta vita af veikindum barna sinna á hverjum morgni. Kennari/ritari getur gefið nemanda leyfi úr einstaka tímum og mest 2 daga.  Ef  um lengri tíma er að ræða þarf að sækja um það skriflega á sérstöku eyðublaði sem er að finna á heimasíðu skólans. Skólastjórnandi tekur ákvörðun um leyfisveitingu.  

Foreldrar eru minntir á að þeir bera ábyrgð á að nemendur vinni upp það sem þeir kunna að missa úr námi meðan á leyfi stendur. Stekkjaskóli leggur ríka áherslu á góða gæslu fyrir nemendur í frímínútum, auk þess sem útivistin er vettvangur fyrir nemendur til að njóta sín í frjálsum leik. Hins vegar getur það komið fyrir alla nemendur að heilsan leyfi ekki útiveru og styðjumst við þá við eftirfarandi vinnureglur: 

Nemandi getur verið inni í frímínútum/útivist einn dag eftir veikindi. Skrifleg beiðni þarf að berast frá foreldrum og bíður nemandi þá inni í sinni stofu á meðan á útivist stendur.  Þar sem þessar undanþágur eru veittar vegna undangenginna veikinda er ekki leyfilegt að aðrir nemendur séu inni. 

Frístund 

Frístundaheimilið Bjarkarból er tengd stofnun við Stekkjaskóla og rekið af fjölskyldusviði sveitarfélagsins. Forstöðukona Bjarkarbóls er Sunna Ottósdóttir. Frístundin Bjarkarból er fyrir nemendur í 1. og 2. bekk en síðan rekur Sveitarfélagið safnfrístund, Eldheima, sem er fyrir börn í 3. og 4. bekk frá Vallaskóla, Sunnulækjarskóla, Stekkjaskóla og BES. Forstöðukona þar er Eva Björk Ingadóttir. Opnunartími er frá 13:00 – 16:15 alla daga og á starfsdögum, í jólafríum og páskafríum er hægt að skrá börnin í lengda viðveru.  

Allar helstu upplýsingar um frístunaheimilið Bjarkarbók má finna hér. 

  

Stjórnskipulag skólans  

Skólastjóri: Hilmar Björgvinsson 

Aðstoðarskólastjóri: Ástrós Rún Sigurðardóttir 

Deildarstjóri stoðþjónustu: Hildur Bjargmundsdóttir 

Deildarstjóri yngra stigs: Álfheiður Tryggvadóttir 

Skólastjóri er samkvæmt grunnskólalögum æðsti stjórnandi skólans og aðstoðarskólastjóri er staðgengill hans. Auk þeirra eru í stjórnendateymi skólans deildarstjóri stoðþjónustu og deildarstjóri yngra stigs. Stjórnendateymið leggur mikla áherslu á samvinnu og deilir verkefnum þvert á teymið. Í skólanum starfar einnig verkefnastjóri UT og tekur hann virkan þátt í skólaþróun og styður við innleiðingu UT kennslu, s.s. í snillismiðjum á yngsta stigi og með upplýsingatækni og forritunarkennslu í valsmiðjum á miðstigi. Kennarar og starfsfólk skólans vinnur í teymum og stjórnendateymið leggur áherslu á skólaþróun, þverfaglega samvinnu, samábyrgð, gleði, traust og virðingu allra. 

 

Hér er hægt að skoða starfsáætlun Stekkjaskóla 2023-2024.