de5455a0-e144-4390-9b8b-3684ca4f1210-removebg-preview

Verklagsreglur

um viðbrögð þegar bregðast þarf við/stöðva óásættanlega og/eða skaðlega hegðun nemenda í grunnskólum Árborgar

Samkvæmt reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum eiga þeir m.a. að stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum, tryggja að nemendur geti notið bernsku sinnar og hæfileika í skólastarfi og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. Hver grunnskóli á að setja sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum, þar sem úrræði og viðbrögð eiga að stuðla að jákvæðri hegðun og miða að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda. Grunnskólar sveitarfélagsins Árborgar hafa sett sér slíkar reglur.

Verklagsreglurnar taka mið af reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og taka til viðbragða við ítrekuðum brotum nemenda á skólareglum skv. 12. gr. og líkamlegu inngripi í mál nemenda vegna óásættanlegrar og/eða skaðlegrar hegðunar nemenda skv. 13. gr. Líkamlegu inngripi má eingöngu beita til að stöðva hegðun sem leiðir af sér hættu fyrir nemandann sjálfan, samnemendur eða starfsfólk eða til að koma í veg fyrir eignatjón. Ef beita þarf líkamlegu inngripi ber að láta tafarlaust af því þegar hættu hefur verið afstýrt. Ávallt skal þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Markmið þessara verklagsreglna er að:

 • mynda samræmdan verkferil í grunnskólum sveitarfélagsins gagnvart þeim nemendum sem víkja frá ábyrgð sinni og skyldum, sbr. reglugerð nr. 1040/2011 og skólareglum hvers grunnskóla
 • auðvelda starfsfólki grunnskóla að bregðast við ef upp kemur vandi hjá nemendum, svo sem vegna samskipta, hegðunar, ofbeldis og/eða áhættuhegðunar
 • skapa vinnulag sem tryggir skilvirka samvinnu nemenda, foreldra, starfsfólks skóla og fjölskyldusviðs sveitarfélagsins til að hlutverk aðila séu skýr og markmið skilgreind

Skilgreiningar

Dæmi um hegðun sem fellur undir þessar verklagsreglur: ítrekuð og alvarleg brot á skólareglum, ítrekuð óæskileg hegðun, vísvitandi skemmdarverk, einelti, hótanir, óásættanlegt orðbragð, andlegt, stafrænt og/eða líkamlegt ofbeldi, vopnaburð, áhættuhegðun nemenda og notkun ávanaog fíkniefna. Áhættuhegðun nemenda er skilgreind sem hegðun sem brýtur gegn þeim viðmiðum og reglum sem gilda í umhverfi nemandans og er líkleg til að valda nemandanum sjálfum eða öðrum skaða. Sem dæmi um líkamlegt inngrip má nefna ef nemanda er haldið, hann fluttur á milli staða gegn vilja sínum eða ferðafrelsi hans skert með öðrum hætti.

Viðbragðsáætlun

 1. Tryggja öryggi
  a. Tryggja skal öryggi með fumlausum og öruggum hætti.
  b. Fá aðstoð starfsmanns sem nemandinn treystir eða tengist. Ef um alvarlegt atvik er að ræða skal kalla til fleiri starfsmenn til að tryggja öryggi.
  c. Aðstoða nemandann út úr aðstæðum og/eða fækka áreitum (getur reynst nauðsynlegt að biðja aðra nemendur um að yfirgefa aðstæður). d. Líkamlegu inngripi skal einungis beitt í ýtrustu neyð skv. 13. gr. (ef nemandinn ætlar að skaða sig eða aðra) og láta af því um leið og hættu hefur verið afstýrt.
 2. Skapa ró
  a. Gefa nemanda færi á að róa sig niður.
  b. Vera til staðar (stundum gott að segja ekkert um sinn eða tala af yfirvegun).
  c. Þegar nemandinn er tilbúinn og rólegur eru næstu skref rædd. Ef beita þurfti líkamlegu inngripi eru ástæður þess útskýrðar fyrir nemandanum og leitað lausna til að það gerist ekki aftur.
  d. Leitað er leiða til að nemandinn geti klárað skóladaginn og foreldrar upplýstir um atvikið.
  e. Ef nemandinn á í erfiðleikum með að róa sig niður er haft samband við forsjáraðila nemanda og óskað eftir aðstoð þeirra.
  f. Ef um mjög alvarlegt atvik var að ræða eða nemandinn nær ekki að jafna sig, þá fer hann heim með foreldrum sínum og skóladeginum er lokið. Gæta ber þess að þetta sé eingöngu gert þegar brýn þörf er á.
 3. Eftirfylgd og stuðningur
  a. Huga skal að nemendum og starfsfólki sem verða vitni að atviki og brugðist við með áfallamiðaðri nálgun ef þörf krefur.
  b. Umsjónarkennari og stjórnandi funda með nemanda og forsjáraðilum eins fljótt og hægt er. Áhersla er lögð á að óásættanleg og/eða skaðleg hegðun sé ekki liðin í skólaumhverfinu og þurfi að stöðva strax. Leitað er lausna til að fyrirbyggja og koma í veg fyrir slíka hegðun.
  c. Skólastjórnendur í samráði við nemandann ef við á, forsjáraðila og umsjónarkennara móta einstaklingsbundna aðgerðaáætlun sem allir samþykkja með undirskrift.
  d. Í aðgerðaáætluninni kemur skýrt fram að hverju þarf að huga í umhverfi nemandans og hvert hlutverk allra er til að koma í veg fyrir óásættanlega og/eða skaðlega hegðun í skólaumhverfinu.
  e. Skólastjórnendur fylgja máli reglulega eftir með nemanda, forsjáraðilum og umsjónarkennara og meta hvort einstaklingsbundin aðgerðaáætlun er að styðja við farsæld nemandans í skólastarfi.
  f. Skólastjórnendur kynna fyrir forsjáraðilum möguleika á að óska eftir samtali hjá tengilið skólans til að meta þörf fyrir samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.
  g. Aðkoma lausnateymis kynnt og forsjáraðilar hvattir til að skrifa undir upplýst samþykki þess efnis að taka megi málið fyrir hjá teyminu.
  h. Ef þörf er á ráðgjöf frá skóla- og/eða velferðarþjónustu þá er beiðnum vísað til lausnateymis/nemendaverndarráðs.
  i. Finnist ekki viðunandi lausn fyrir nemandann er það tilkynnt til barnaverndar og lögreglu ef við á.
  j. Teymi nemandans vinnur í málinu með aðkomu barnaverndar og/eða fjölskyldusviðs ef við á. Á meðan getur komið til þess að nemandinn sé í heimaskóla, tímabundinni brottvísun eða í öðru sérúrræði.
  k. Ef viðunandi árangur næst ekki með ofangreindu er mögulegt að óska eftir aðkomu Landsteymis um farsæld barna.
 4. Skráningar og tilkynningar
  a. Skólastjóri ber ábyrgð á að þeir sem komu að málinu vinni atvikaskráningu á þar til gerðu eyðublaði vegna nemandans. Geyma skal atvikaskráningu í persónumöppu nemanda.
  b. Þeir sem komu að málinu bera ábyrgð á að vinna atvikaskráningu/slysaskráningu/ áverkavottorð vegna starfsmanna á þar til gerðum eyðublöðum. Sjá verklag vegna vinnuslysa gefið út af Sveitarfélaginu Árborg í mars 2023 sem stjórnendur hafa aðgang að.
  c. Sé tilefni til skal upplýsa þá fagaðila sem koma að nemandanum um atvikið skv. 2. mgr. 47. gr. a. í grunnskólalögum nr. 91/2008.
  d. Sé tilefni til skal frístundaþjónustu gert viðvart um atvikið sbr. sömu lagagrein og í lið c.

Til áréttingar:

Ef um alvarleg atvik er að ræða, líkt og vopnaburð, áfengis- og fíkniefnaneyslu, sölu og dreifingu fíkniefna og gróft ofbeldi er hiklaust haft samband við lögreglu og barnavernd. Forsjáraðilar eru upplýstir um atvik. Skólastjóri ákveður hvort vísa eigi nemanda úr skóla tímabundið meðan málið er unnið í samráði við foreldra og barnavernd.

Allur ferill máls skal skráður formlega og undantekningarlaust. Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum. Þá ber forsjáraðilum alltaf að taka þátt í meðferð máls, en telji forsjáraðilar eða stjórnendur skóla að ekki ríki trúnaður eða traust í tengslum við úrvinnslu máls er æskilegt að leita aðstoðar utanaðkomandi aðila s.s. fjölskyldusviðs sveitarfélagsins, fagráðs eineltismála og/eða landsteymis um farsæld barna.

Endurskoðaðar verklagsreglur Fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Árborgar, jan. 2024.

Staðfest í fræðslu- og frístundanefnd 14. febrúar 2024