Tilhögun kennslu  

Kennsluhættir

Allt frá því að Stekkjaskóli var stofnaður var ákveðið að skólinn skyldi leggja teymiskennslu til grundvallar í starfi skólans. Þrátt fyrir margvíslegar hindranir á fyrstu tveim starfsárum skólans var unnið ötult þróunarstarf og skólinn og kennsluhættir í mótun. Teymiskennsla hefur verið innleidd og fjölmargar kennsluaðferðir prófaðar. Með verkefninu Stekkur til framtíðar - Að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla var lagður ákveðinn grunnur að framtíðar starfsháttum skólans. Sjá lokaskýrslu um þróunarverkefnið hér. Auk teymiskennslu má nefna innleiðingu Jákvæðs aga, nýtingu upplýsingatækninnar, nýsköpun, skapandi starf og útinám. Í tveim árgöngum er búið að innleiða námsskipulagið Læsisfimmuna, auk þess sem kennarateymin nota mikið hringekjuvinnu, ýmis konar hópastarf og þemavinnu. 

Nú þegar skólinn hefur fengið framtíðarhúsnæði, sem hannað er utan um teymiskennslu og sveigjanlegt starf, ættu að vera góðar forsendur til að þróa þessa starfshætti áfram. Við teljum einnig að starfshættir skólans beri mörg megin einkenni skóla sem lifandi lærdómssamfélags. Teymiskennsla byggist á stöðugri umræðu og sameiginlegri ígrundun. 

Kennsla fer fram samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og skólanámskrá Stekkjaskóla. Í 1. - 6. bekk er teymiskennsla þar sem allur árgangurinn er í sama námshóp/árgangi með tvo til þrjá umsjónarkennara. Þeir bera sameiginlega ábyrgð á námi nemenda sinna, kennslu, undirbúningi og daglegum samskiptum. Slíkir kennsluhættir hafa gefist mjög vel og hafa marga kosti bæði fyrir nemendur og samstarf kennara. Kennarar leitast við að skapa nemendum sínum námsumhverfi þar sem hlúð er að hverjum einstaklingi og mismunandi þörfum nemenda mætt. Helstu kostir teymiskennslunnar eru eftirfarandi.  

  • Fjölbreyttari félagahópur sem getur leitt til meiri samheldni innan nemendahóps.  
  • Hægt að skipta nemendum upp í smærri hópa til að mæta ólíkum þörfum þeirra.  
  • Fleiri kennarar og stuðningsfulltrúar á svæðinu til að aðstoða nemendur. 
  • Meira samstarf kennara, minni einangrun. 
  • Vinnuhagræðing og meiri vinnugleði hjá kennurum. 

Í skólanum er rík áhersla lögð á fjölbreytta kennsluhætti og fjölbreytt námsumhverfi nemenda. Kennarar leggja rækt við sveigjanlega kennsluhætti, sjálfstæð vinnubrögð, skapandi starf og samvinnu nemenda og starfsfólks. Jafnframt er lögð rík áhersla á jákvæð samskipti allra, bæði nemenda og starfsfólks. Í Stekkjaskóla er markmiðið að þróa öflugt lærdómssamfélag starfsfólks sem byggir á þverfaglegu samstarfi allra. Allir starfsmenn hafa sitt hlutverk. 

Smiðjur 

Í Stekkjaskóla er lögð áhersla á list- og verkgreinar sem kenndar eru í smiðjum. Á yngsta stigi eru þær nokkuð hefðbundnar en á miðstigi er boðið upp á val. 

Smiðjur á yngsta stigi

Í 1.- 4. bekk er boðið upp á list- og verkgreinakennslu í smiðjuformi. Nemendur fara í textílmennt, smíði, heimilisfræði og tónmennt tvisvar sinnum í viku í 80 mín í senn í 6 vikur. Nemendur ná því að fara tvisvar sinnum í hverja grein yfir skólaárið, við skipuleggjum starfið þannig að nemendur ná allir tveim rúllum. Nemendur í 4. bekk fóru hins vegar í Auðlind núna á haustönn í stað tónmenntar og fara í tónmennt á vorönn. 

Valsmiðjur á miðstigi

Í vetur býður Stekkjaskóli upp á valgreinar á miðstigi. Þar er nemendum í 5. og 6. árgangi kennt saman. Í boði eru fjölbreyttar list- og verkgreinasmiðjur ásamt íþróttavali, UT kennslu o.fl. Áhersla er á að hafa smiðjurnar fjölbreyttar þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Foreldrar fara yfir framboðið með sínum börnum heima og kvitta undir áður en nemendur skila inn til umsjónarkennara.