Stekkur til framtíðar

Þróunarverkefnið fékk nafnið Stekkur til framtíðar – Að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla. Verkefninu hefur verið stýrt af teymi sem í eru Ingvar Sigurgeirsson verkefnisstjóri, Hilmar Björgvinsson skólastjóri, Ástrós Rún Sigurðarsdóttir aðstoðarskólastjóri og Hildur Bjargmundsdóttir deildarstjóri.

Eftirfarandi leiðir hafa verið farnar við framkvæmd verkefnisins:

1. Innleiðing teymiskennslu, eftirfylgni og mat.

2. Stofnun og starf þróunarteyma

3. Fræðsla

a. Gestafyrirlestrar

b. Þátttaka í ráðstefnum

c. Heimsóknir í skóla

d. Jafningjafræðsla

e. Vikulegt fréttabréf til starfsmanna

4. Innleiðingar-, mats- og uppgjörsfundir

Teymiskennsla

Allt frá því að Stekkjaskóli var stofnaður var ákveðið að skólinn skyldi leggja teymiskennslu til grundvallar í starfi skólans.

Þróunarverkefnið hófst formlega á vinnudegi á Úlfljótsvatni í ágúst 2021 þar sem fjallað var um teymiskennslu (rannsóknir, sóknarfæri og áskoranir) og skólann sem lifandi lærdómssamfélag.

Þróunarteymi

Strax að hausti 2021 voru skipuð fjögur þróunarteymi, blandaðir hópar með þátttöku allra kennara:

· Skapandi skólastarf – fjölbreyttir kennsluhættir

· Umhverfismál og útikennsla

· Jákvæður skólabragur

· Tækni og nýsköpun (snjallteymi)

Í hverju teymi eru 4-6 kennarar. Verkefni þeirra hefur verið að leiða þróunarstarf á sínu sviði, fara yfir möguleika, kynna sér þróunarverkefni og setja fram tillögur um það sem sett yrði á oddinn í starfi skólans.

Fræðsla og heimsóknir

Frá upphafi hefur verið skipulögð regluleg fræðsla tengd markmiðum verkefnisins. Verkefnisstjóri hefur fjallað um innleiðingu teymiskennslu, eðli og mikilvægi þróunarverkefna og um fjölbreytt þróunarverkefni í öðrum skólum. Ýmsir gestafyrirlesarar hafa komið til okkar eða hitt okkur á Teams á tímum heimsfaraldurs. Dæmi um fyrirlestra; Teymiskennsla í Lindaskóla, notkun gagnvirkra snjallskjáa og gagnvirk verkefni í Hlíðaskóla, farsæld barna í skólastarfi og hvernig hægt er að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda, innleiðing á uppeldisstefnunni Jákvæður agi og teymiskennsla í Brekkubæjarskóla á Akranesi.

Í tengslum við þróunarverkefnið hafa kennarar ásamt skólastjórnendum fjölmennt á nokkrar ráðstefnur. Má þar helst nefna haustráðstefnu Samtaka áhugafólks um skólaþróun sem haldin var í Stapaskóla í Reykjanesbæ 12. ágúst 2022 og Utís online sem haldin var 23.-24. september 2022. Allir starfsmenn skólans heimsóttu Bláskógaskóla á Laugarvatni á starfsdegi í ágúst. Þar fengu starfsmenn kynningu á útinámi og dyggðarkennslu og síðan heimsóttu list- og verkgreinakennarar Húsaskóla í Reykjavík og fræddust m.a. um valnámskeið á miðstigi.

Nokkur verkefni

Á þeim stutta tíma sem Stekkjaskóli hefur verið starfandi hefur ýmsum verkefnum verið hrint í framkvæmd sem falla undir hvert þróunarteymi. Hér verða nefnd nokkur verkefni:

Útinám

(Umhverfismál og útikennsla)

Íþróttir eru kenndar einu sinni í viku úti allt skólaárið hjá öllum árgöngum. Í vetur hefur einnig heimilisfræði verið kennd úti og í heimastofum nemenda þar sem engin heimilisfræðistofa er til staðar. Skólinn hefur komið sér upp útieldunarbúnaði s.s. stóra pönnu sem notuð er yfir eldstæði. Þar hafa verið bakaðar lummur við mikla hrifningu nemenda.

Jákvæður agi

(Jákvæður skólabragur)

Stekkjaskóli vinnur eftir uppeldisstefnunni Jákvæður agi.

Jákvæður agi byggir á vinnu og kenningum Alfred Adler og Rudolf Dreikurs. Þeir áttuðu sig á gríðarlegu mikilvægi þess að allir fái upplifað virðingu og reisn, líka börn. Allt efni sem viðkemur Jákvæðum aga, lesefni, annað fræðsluefni og námskeið, miðast við að færa foreldrum, kennurum og öðrum sem koma að uppeldi barna í hendur aðferðir sem hvetja og efla börn og fullorðna.

Jákvæður agi hjálpar þeim að öðlast víðtæka félagsfærni og efla lífsleikni án þess að byggja á refsingum. Aðferðir Jákvæðs aga byggjast á m.a. að sýna alltaf væntumþykju og virðingu, að sýna góðvild og festu á sama tíma, að sjá mistök sem frábær tækifæri til náms, að aðstoða börnin við að kanna valkosti og afleiðingar í stað þess að setja upp afleiðingar til að láta þau gjalda fyrir mistök sín og að einbeita sér að lausnum og hafa börnin með í ráðum. Þannig eru þau viljugri til að fylgja þeim reglum sem settar eru eða leiðum sem eru markaðar og öðlast mikilvæga færni í leiðinni.

Snillismiðjur

(Tækni og nýsköpun)

Í snillismiðju vinnur UT kennari ásamt umsjónarkennurum með nemendahóp að ýmsum verkefnum í spjaldtölvum, með forritunarbýflugur o.fl.

Örvera

(Teach meet)

Hálfsmánaðarlega hittast kennarar á fimmtudögum í 30 mínútur þar sem þeir kynna áhugaverð verkefni fyrir hverjir öðrum. Hver kynning er aðeins 7 mínútur og síðan umræður á eftir.

 

Framundan í þróunarverkefninu er að vinna með gildi skólans ásamt skólasamfélaginu. Stefnt er að kynna gildin í lok skólaárs. Í vor verður kynning á niðurstöðum verkefnisins og gefin út skýrsla.

Sjá einnig heimasíðu Ingvars Sigurgeirssonar verkefnastjóra sem stýrir verkefninu ásamt skólastjórnendum. Heimasíða: https://skolastofan.is/throunarverkefni-i-stekkjaskola/