Sérfræðiþjónusta frá fjölskyldusviði Árborgar

Í upphafi ársins 2014 tók skólaþjónusta Árborgar formlega til starfa en um er að ræða alla skólaþjónustu við leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu. Leiðarljós skólaþjónustunnar er að þjóna fjölbreyttum þörfum barna, foreldra og starfsfólks. Deildarstjóri stoðþjónustu er tengiliður sérfræðinga utan skólans við kennara og foreldra. Þá er stoðþjónusta Stekkjaskóla í góðu samstarfi við HSU og sérfræðinga sem þar starfa.

Sérfræðingar sem Stekkjaskóli hefur aðgang að eru:

  1. Kennsluráðgjafi, Skólaþjónusta Árborgar - Veitir ráðgjöf til foreldra og skóla. - Leiðbeinir kennurum sem eiga í vanda með ákveðna þætti í starfinu, s.s. með tengslakönnunum, veru í kennslustund og/eða val á viðfangsefnum og kennsluaðferðum.
  2. Kennsluráðgjafi í fjölmenningu, Skólaþjónusta Árborgar - Ráðgjafi í kennslu barna af erlendum uppruna - Sinnir ráðgjöf og fræðslu til starfsfólks leik- og grunnskóla auk foreldra og nemenda.
  3. Sálfræðingur, Skólaþjónusta Árborgar - Skólasálfræðingur kemur að greiningum og eftirfylgd. Þá veitir hann ráðgjöf í skóla og til heimila. Ef þörf er á meðferð eða frekari greiningu vísar sálfræðingur nemandanum áfram til meðferðarsálfræðings, Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins eða Barna- og unglingageðdeildar Landspítala.
  4. Talmeinafræðingur, Skólaþjónusta Árborgar - Greinir málþroska og talfærni nemenda. Veitir ráðgjöf til heimilis og skóla.
  5. Iðjuþjálfi, HSU - Leggur mat á hreyfifærni nemenda og veitir ráðgjöf varðandi aukna færni í athöfnum daglegs lífs til heimilis og skóla. Sé þörf á frekari iðjuþjálfun hjá nemandanum er honum vísað í þjálfun á HSU.

Trúnaðarupplýsingar um nemendur s.s. niðurstöður greininga, eru í vörslu deildarstjóra stoðþjónustu en aðrir starfsmenn Stekkjaskóla hafa aðgang að þessum gögnum eftir því sem við á. Trúnaðargögnin má hvorki fjölfalda né fjarlægja úr skápnum.