Heimsókn 4. bekkjar í Alviðru

Á mánudaginn fórum við í 4. bekk í heimsókn í Alviðru, sem er umhverfisfræðasetur Landverndar. Í Alviðru er gott safn af uppstoppuðum fuglum. Börnin fengu líflega fræðslu um muninn á sjófuglum, vaðfuglum og spörfuglum. Auk þess var hver fuglategund skoðuð vel og kannað hvort börnin þekktu þær. Margir lærðu nokkur fuglanöfn, s.s. jaðrakan, æðarfugl, snjótittling, straumönd o.fl.

Í Alviðru er líka gamalt fjós og hlaða sem börnin fengu að skoða og leika sér í. Auk þess er á staðnum gott steinasafn sem þau fengu að skoða. Þau skoðuðu ólíka steina og rannsökuðu þau hverjir geta flotið í vatni og hverjir ekki, þ.e. hafa léttari eðlismassa en vatn. Börnin voru hvött til að lyfta stærstu steinunum og kom það þeim á óvart hve eðlisléttur stór hraunmoli úr nýja eldgosinu í Reykjanesi var.

Við fórum í göngutúr upp að Ingólfsfjalli. Þar er gamall hlaðinn veggur úr grjóti og talsvert af stórum, sléttum steinum sem sjórinn, sem náði upp að Ingólfsfjalli í gamla daga, hefur barið og gert ávala. Auk þess er þar gott berjaland sem vakti mikla lukku hjá börnunum. Þetta var góð ferð þrátt fyrir suddann og í lokinn benti staðarhaldarinn okkur á að land Alviðru er almenningur (í almanna eign) sem allir geta nýtt sér til berjatínslu og eflaust munu einhverjir nýta sér það næstu daga 🙂

Margrét og Inga Lára.

Alviðra – Fræðslusetur Landverndar