Það voru glaðir nemendur sem mættu ásamt forráðamönnum sínum á skólasetningu Stekkjaskóla í dag.
Í skólasetningarræðu Hilmars Björgvinssonar skólastjóra kom fram að nemendum hefur fjölgað mjög mikið frá því í fyrravetur. Í skólabyrjun er fjöldi nemanda orðinn 171 talsins í 1. – 5. bekk. Í vor voru þeir 106. Flestir nemendur eru í 1. bekk eða samtals 43 og er árgangurinn fjölmennasti 1. bekkjar árgangur í skólum Árborgar.
Hilmar lagði áherslu á vellíðan nemenda og að komið sé til móts við þarfir þeirra og áhuga. Hann sagði að fjölbreytni í náms- og kennsluháttum geri námið svo miklu skemmtilegra og nefndi áherslu skólans á list- og verkgreinar . Áfram verða smiðjutímar og Fjörfiskur þar sem áhersla er m.a. á söng, upplestur og leiklist. Kór Stekkjaskóla verður á sínum stað fyrir nemendur í 3.-5. bekk og Regnbogi eru samþættir tímar þar sem list- og verkgreinakennari vinnur með umsjónarkennurum að fjölbreyttum verkefnum.
Á komandi skólaári er ætlunin að halda áfram að byggja upp gott skólastarf og vinna að Sprotaverkefni skólans; Stekk til framtíðar. Í þróunarverkefninu er stefna og áherslur skólans mótaðar.