Baráttudagur gegn einelti

Þriðjudaginn 8.nóvember var Baráttudagur gegn einelti. Í öllum árgöngum voru unnin verkefni í tilefni dagsins og dreifðist sú vinna yfir alla daga vikunnar.

Rætt var um einelti og hvaða afleiðingar það getur haft á þá sem fyrir því verða. Nokkrir árgangar unnu með útklipptan líkama og hvaða áhrif ljót orð hafa á hann. Líkaminn var krumpaður við öll ljótu orðin en þannig líður þeim sem verða fyrir einelti, krumpaðir að innan. Orð særa og þá líður viðkomandi illa og sumir bera þau ör alla ævi.

Í Stekkjaskóla leggjum við mikla áherslu á vináttuna. Við viljum að allir séu góðir við hverja aðra. Stríðni og að meiða er ekki liðið. Unnið var með vináttuna og eitt verkefnið var að klippa út hjörtu og skrifaðar fallegar kveðjur á þau. Nemendur byrjuðu að bera út þessar fallegu kveðjur í hús í skólahverfinu í vikunni sem leið og munu halda því áfram í næstu viku. Hver nemandi sendir eina kveðju.

Hér má sjá dæmi um það sem gert var í hverjum árgangi á Baráttudegi gegn einelti og vinadögum skólans:

1.bekkur
Í þessari viku var lögð áhersla á vináttuna í 1. bekk og kynntum við börnunum fyrir eineltishring Olweus. Á þriðjudaginn var baráttudagur gegn einelti og klæddust allir í grænu í tilefni dagsins. Börnin teiknuðu mynd á græn hjörtu sem þau báru í hús í nágrenni skólans á miðvikudaginn. Einnig bjuggu allir nemendur til græn vinabönd. Á föstudaginn var horft á Ávaxtakörfuna sem fjallar einmitt um samskipti og einelti.

2. bekkur
Nemendur í 2. bekk byrjuðu á að horfa á myndbönd á þriðjudaginn og tókum við svo spjall um einelti, hvað einelti er og hvað er hægt að gera til að stoppa það eða koma í veg fyrir einelti. Fórum yfir eineltishring Olweusar og fundum saman falleg orð til að skrifa á hjörtu hjá hvert öðru sem búið var að klippa út. Á miðvikudaginn völdu svo nemendur fallega kveðju til íbúa í nágrenninu sem þeir skrifuðu á hjörtu. Hjörtun verða borin út við tækifæri. Eigum svo eftir að vinna fleiri verkefni og fara í vinaleiki.

3. bekkur
Á baráttudegi gegn einelti kynntumst við Kalla sem er nýr í skólanum og er smeykur um hvernig það gangi. Kennar bað nemendur um að segja orð við Kalla sem særa. Þegar orðin komu krumpaði kennarinn Kalla. Nemendur urðu hissa. Þegar þeir voru spurðir af því af hverju Kalli var krumpaður stóð ekki á svörunum. Jú afþví að Kalla leið illa af því að allir voru svo vondir við hann. Verkefnið fólk í sér samlíkingu á því að krumpa útklipptan líkama og hvernig þeim sem er strítt eða eru lagðir í einelti líður. Þegar nemendur sögðu falleg og uppbyggileg orð við Kalla réttist úr honum þar til að hann varð næstum því sléttur. Það urðu eftir krumpur því að þeir sem verða fyrir einelti geta borið ör alla ævi.

Í vikubréfi til forráðamanna voru þeir hvattir til að fá börnin sín til að segja söguna af honum Kalla.

4. bekkur
Þá er vinavikan liðin og var mikið unnið með vináttu, framkomu og talað um einelti og hvað við geturm gert ef við sjáum , verðum fyrir eða leggjum í einelti. Skoðuðum eineltishringinn.Ræddum um mismunandi birtingamyndir eineltis og hvaða áhrif þetta getur haft á einstaklinginn sem verður fyrir einelti en einnig ræddum við að þetta getur líka haft áhrif á þá sem leggja í einelti seinna meir þegar þeir átta sig á því hvað þeir hafa gert annarri manneskju. Horfðum á myndina Katla gamla (hún er aðgengileg á mms.is) og myndband sem var gert 2020 í tilefni dagsins. Sjá hér.

Í lok vikunnar skrifuðu börnin falleg orð á hjarta til nágranna okkar en í næstu viku göngum við í hús og setjum kveðjurnar inn um póstlúguna. Hér koma fallegu kveðjurnar frá yndislegu börnunum okkar:

Þú ert frábær
Þú ert flott/flottur eins og þú ert
Brostu það fer þér vel
Haltu áfram að vera þú
Þú ert hugrökk/hugrakkur og sterk/sterkur
Þú ert góður vinur
Þú ert falleg/fallegur
Vertu eins flott/flottur og þú ert
Þú ert góð manneskja
Brostu stórt og njóttu jólanna
Ef þú ætlar þér eitthvað þá getur þú það
Brostu stórt og njóttu lífsins, hafðu gaman í des. og mundu aldrei að gefast upp.

5.bekkur

Við horfðum á myndbandið ,,Þú getur hjálpað“ og ræddum aðeins saman hópurinn um einelti og eineltishringinn.

Helga Þórey og Inga Dröfn komu inn til okkar með skemmtilegt verkefni. Við skiptum í tvo hópa eftir kyni. Strákarnir í annarri stofunni og stelpurnar í hinni. Innan þeirra hópa var skipt í tvo minni og fékk hver hópur útklipptan líkama. Nemendur áttu síðan að skrifa á líkamann öll þau ljótu orð sem hafa verið sögð við þau, þau hafa heyrt sagt við einhvern annan eða þau sögðu við einhvern. Síðan rifu þau líkamann niður í kringum orðin. Að lokum áttu þau að púsla orðunum aftur saman. Það var mikið spjall í kringum þetta verkefni og sáu nemendur að orðin skildu eftir sig sár þó svo að við værum búin að reyna að setja líkamann saman aftur.
Jónína kom síðan inn með græn hjörtu þar sem nemendur áttu að skrifa eitthvað fallegt. Tóku þau þá ákvörðun að hengja hjörtun á samlímdan líkamann þar sem þau sögðust vera með samviskubit yfir öllu því ljóta sem þau skrifuðu.

Við höfum haldið áfram í þessu þema um vináttu og horfðum á myndina Ron er í rugli inn á Disneyplús og unnum verkefni í Regnboga þar sem farið var í samfélagsmiðla og vináttu.