Við í Stekkjaskóla viljum stuðla að einstaklingsmiðuðu námi og kenna nemendum okkar að setja sér námsmarkmið út frá hæfniviðmiðum sem er unnið með hverju sinni. Með þessum bókum stuðlum við að því að nemendur setji sér markmið í samráði við kennara og samhliða sjá nemendur og foreldrar alltaf þau markmið sem stefnt er að. Í Áformsbókinni er líka lestrarkvittanahefti, orðakistur og málið mitt, en þetta er misjafnt eftir árgöngum. Við byrjum rólega með yngstu börnin og þjálfum þau svo í því að setja sér áform/markmið í 3. bekk. Í bókunum hjá 1. og 2. bekk geta kennarar og foreldrar skrifað skilaboð, námsmarkmið eða annað.
Við vinnum með áform tvær vikur fram í tímann og munum leggja áherslu á að nemendur standi við áformin sín og setji sér raunhæf markmið, eftir getu hvers og eins. Við gefum öllum tíma til að læra á þetta og kynnist hugtökunum áform og markmið. Áformsbókin fer heim daglega, í plastvasa, og því geta foreldrar fylgst vel með og aðstoðað barnið sitt eftir þörfum og verið meðvitaðir um þau hæfnimarkmið sem lögð eru til grundvallar í íslensku og stærðfræði.
Stekkjaskóli leggur áherslu á að heimanám sé lítið, fyrir utan heimalestur, nemendur vinna að sínum áformum í skólanum. Við leggjum hins vegar mikla áherslu á heimalestur, 5-7 sinnum í viku, nemendur í 1. og 2. bekk skrifa orð í orðakistur og nemendur í 3. – 6. bekk æfa ritun á orðum og/eða málsgreinum. Að vinna samhliða með lestur og ritun styrkir nemendur okkar í lestrarnáminu, eflir sjónrænan orðaforða, lesskilning og stafsetningu.
Samvinna heimilis og skóla er mjög mikilvæg fyrir farsæld nemenda okkar. Í Áformsbókinni eru góðar upplýsingar um þá þætti sem koma fyrir í hverri bók. Ekki hika við að hafa samband við umsjónarkennara eða stjórnendur ef einhverjar spurningar vakna.
Bókin er prentuð í einu eintaki fyrir hvern nemenda, því er mikilvægt að bókin sé alltaf í plastvasanum sínum og rati svo í töskuna að heimalestri loknum. Við notum þessa bók allt skólaárið.
Lestur
Heimalestur er metinn eftir hæfnitáknunum okkar fimm líkt og gert var á síðasta skólaári og verður miðað við að lesið sé heima 9 -10 sinnum yfir tveggja vikna tímabil.
Matskvarði á heimalestur:
Framúrskarandi lesið 11 sinnum eða oftar
Hæfni náð lesið 9 – 10 sinnum
Á góðri leið lesið 6 – 8 sinnum
Þarfnast þjálfunar lesið 3 – 5 sinnum
Hæfni ekki náð Heimalestri ekki sinnt, lesið 0 – 2 sinnum