
Fréttasafn
Fimmtudaginn 27. apríl var árshátíð 5. bekkjar. Nemendur sýndu leikritið Dýrin í Hálsaskógi. Nemendur sáu um handritsgerð, leikmuni og búningahönnun og æfðu leikritið og sönginn mjög vel undir stjórn kennaranna sinna, stuðningsfulltrúa, tónmenntakennara o.fl. Jafnframt voru margir nemendur duglegir að æfa sig heima.
Leiksýningin gekk alveg glimrandi vel og voru foreldrar og aðrir gestir virkilega ánægðir með frammistöðu nemenda. Þetta var glæsilegur leiksigur hjá þeim og söngurinn var mjög flottur. Einsöngvararnir stóðu sig sérstaklega vel. Til hamingju með frábæran árangur nemendur.
Að lokinn leiksýningu voru veitingar í boði foreldra í matsalnum þar sem sýningin fór fram og í framhaldinu skoðuðu foreldrar heimastofu barnanna sinna.
Til hamingju með vel heppnaða árshátíð nemendur, starfsmenn og foreldrar.
Miðvikudaginn 26. apríl var árshátíð 2. EK. Þetta var jafnframt fyrsta árshátíðin þetta skólaár og fyrsta árshátíðin í nýju skólabyggingunni okkar. Nemendur byrjuðu á því að syngja öll saman eitt lag og í framhaldinu sýndu þeir nokkra leikþætti á skjá sem þeir höfðu æft síðustu daga og vikur. Nemendur sömdu leikþættina upp úr þekktum ævintýrum m.a. um Rauðhettu og Grísina þrjá í ýmsum útfærslum. Leikmyndina bjuggu nemendur til og fundu til ýmsa búninga.
Þetta var virkilega vel gert hjá nemendum 2. bekkjar og það sást vel að þeir höfðu mjög gaman af þessu verkefni. Foreldrar og starfsmenn skemmtu sér mjög vel. Eftir leiksýninguna var Pálínuboð á vegum foreldra í heimastofu nemenda.
Nemendur, starfsmenn og foreldrar fá hrós fyrir frábæra skemmtun.
Þriðjudaginn 25. apríl var haldinn fundur í Árborg á vegum Heimili og skóla, landssamtaka foreldra.
Fundurinn var ætlaður forsjáraðilum barna í grunnskólum, leikskólum, framhaldsskóla, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum sem tilheyra Árborg.
Fundurinn fjallaði um endurreisn foreldrastarfs í kjölfar heimsfaraldurs, mikilvægi foreldrastarfs og virk samskipti heimila og skóla.
Í haust mun Heimili og skóli leiða innleiðingu farsældarssáttmála.
Fundurinn var á íslensku og textaður á ensku. Hvetjum foreldra að horfa á fyrirlesturinn en hægt er að horfa á hann hér fyrir neðan.