Nemendur og starfsmenn Stekkjaskóla fengu aldeilis frábæra gesti þriðjudaginn 28. mars síðastliðinn. Það voru félagarnir Gunnar Helgason og Felix Bergsson sem komu og fluttu dagskrána Ein stór fjölskylda fyrir alla nemendur og starfsmenn skólans.
Gunnar sem er leikari og rithöfundur sagði frá því hvernig á að skrifa geggjaðar sögur og hvað þarf til að gera góða sögu enn betri.
Felix sem er einnig leikari fór ofan í saumana á hinum ýmsu fjölskylduformum sem hafa alltaf verið til í samfélaginu þó sum hafi verið „samþykktari“ en önnur. Hann opnaði augu og hjörtu áhorfenda til að stuðla að opnara og fordómalausara samfélagi. Hvað er „venjuleg“ fjölskylda? Hvað er það að vera fjölskylda?
Félagarnir svöruðu síðan spurningum nemenda sem voru margar og góðar.
Í kjölfarið tók við söngskemmtun þar sem Gunni og Felix sungu lög frá rúmlega 25 ára ferli sínum en Gunni og Felix urðu til þegar þeir tóku við Stundinni okkar árið 1994. Þeir fengu nemendur til að syngja, dansa og hlæja með og þar sannast hið forkveðna: þegar barnið hlær verður heimurinn betri.
Þessi listviðburður var í boði verkefnisins List fyrir alla sem er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum. Sjá nánar hér.