Upplestrarhátíð Stekkjaskóla

Föstudaginn 4.mars var fyrsta upplestrarhátíð Stekkjaskóla haldin hátíðleg. Upplestrarhátíðin eða Litla upplestrarkeppnin eins og hún er oft kölluð er haldin árlega í 4.bekk í grunnskólum landsins og er einskonar undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina í 7.bekk.

Markmið upplestrarhátíðarinnar er að ná betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu.

Upplestrarhátíðin hefur átt langan undirbúningstíma. Umsjónarkennarar 4.bekkjar sátu námskeið á Stokkseyri hjá Ingibjörgu Einarsdóttur hjá Röddum (samtök um vandaðan upplestur og framsögn) í október 2021 þar sem farið var yfir ýmsar leiðir til að kenna upplestur og framkomu, uppsetningu hátðarinnar og fleira.

Undirbúningur hátíðarinnar hófst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember 2021. Við fengum fjölbreyttan texta sendan frá Röddum til að æfa í skólanum. Í desember völdu nemendur sér jólasvein úr Jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum. Allir voru duglegir að æfa sig bæði heima og í skólanum en á endanum fluttu nemendur vísurnar í tveimur hópum fyrir aðra nemendur skólans. Sá flutningur gekk mjög vel.

Í febrúar fengum við textana senda sem flytja átti á upplestrarhátíðinni. Nemendur létu vita hvað þeir treystu sér til að lesa, hvort þeir gætu lesið einir, í pari eða í hóp. Snemma var tekin sú ákvörðun að þetta væri hátíð nemendanna og þeir myndu fá að ráða ferðinni sjálfir.

Textar voru sendir heim til að æfa sem einnig voru æfðir stíft í skólanum. Nemendur buðu sig margir fram í starf kynna og voru tveir nemendur valdir; Ragna Fanney og Stefán Darri.

Á upplestrarhátíðinni stóðu umsjónarkennarar til hliðar og nemendur tóku við stýrinu. Foreldrar mættu vel á hátíðina og gekk allt vel fyrir sig. Nemendur stóðu sig með prýði og allir tóku virkan þátt. Hátíðin hófst á söngatriði þar sem allur árgangurinn söng lagið Á íslensku eftir Þórarinn Eldjárn. Nemendur fluttu tíu margvíslega texta; þulur, vísur, málfarsmola og dæmisögur auk þess sem tveir nemendur voru með tónlistaratriði og spiluðu lag á gítar.