Verkefni skólans heitir; Að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla. Eins og nafnið gefur til kynna verður unnið með hugmyndafræði lærdómssamfélagsins (e. professional learning community) frá stofnun Stekkjaskóla haustið 2021 með því að byggja upp traust og samstarfshugsun frá upphafi. Mótuð verður framtíðarsýn skólans með starfsfólki, nemendum, foreldrum, nærsamfélaginu og skólaþjónustu Árborgar og stuðlað þannig að lýðræði og jafnrétti í skólasamfélaginu. Jafnframt verður leitað til ýmissa sérfræðinga innan og utan Árborgar.
Í þessu lærdómssamfélagsverkefni verður lögð áhersla á eftirfarandi grunnþætti:
Áherslur og gildi skólans (einkunnarorð)
Teymisvinna og teymiskennsla (Lýðræði – samvinna – samábyrgð)
Áherslur og stefna skólans verður mótuð ásamt einkunnarorðum hans. Jafnframt verður unnið með teymisvinnu og teymiskennslu sem mun verða aðalsmerki skólans.
Verkefninu verður stýrt af teymi sem er samsett af stjórnendum Stekkjaskóla, fulltrúum starfsmanna, auk Ingvars Sigurgeirssonar prófessors og verkefnisstjóra.
Skólastjórnendur og fulltrúar frá Stekkjaskóla, munu kynna niðurstöður og afrakstur fyrir skólasamfélaginu í lok næsta skólaárs með eftirfarandi hætti:
Uppskeruhátíð að vori. Kynningar á meginþáttum verkefnisins með þátttöku skólasamfélagsins.
Helstu niðurstöður settar á heimasíðu skólans sem og lokaskýrsla.
Verkefnið og niðurstöður kynntar í staðarblöðum sveitarfélagsins því jákvæð umfjöllun styrkir og eflir skólasamfélagið.
Með greinaskrifum í fagtímarit.
Kynning á Skóladegi Árborgar, mars 2023.
Þess má geta að Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fékk einnig styrk úr Sprotasjóði fyrir verkefni sitt BES lítur sér nær. Við óskum BES innilega til hamingju með styrkinn og þetta flotta verkefni. Sjá nánar frétt á vef Árborgar.