Fyrsta skólasetning Stekkjaskóla

Í dag, þriðjudaginn 24. ágúst, var fyrsta skólasetning Stekkjaskóla. Hún fór fram í frístundarheimilinu Bifröst þar sem skólastarfið hefst þetta haustið.

Hilmar Björgvinsson skólastjóri flutti skólasetningarræðu þar sem hann lagði m.a. áherslu á mikilvægi góðra samskipta og að öllum líði vel í skólanum. Hann fór yfir nokkra áhersluþætti skólans s.s. er varðar teymisvinnu og teymiskennslu, áherslu á fjölbreytt og fræðandi nám þar sem komið er til móts við áhuga og þarfir nemenda. Í Stekkjaskóla verður lögð áhersla á list- og verkgreinar sem eru settar upp í smiðjutímum. Tónlist verður áberandi í skólastarfinu. Stofnaður verður kór fyrir nemendur í  2.-4. bekk og Fjörfiskur eru tímar í hverri viku þar sem nemendur koma saman syngja og æfa leiklist og framsögn.

Í skólabyrjun eru  104 nemendur í 1.-4. bekk.  Í 1. bekk eru 38 nemendur, í 2. bekk eru 19 nemendur, í 3. bekk eru 16 nemendur og í 4. bekk er 31 nemandi. Þess má geta að 2. og 3. bekkur verða saman í teymiskennslu. Starfsmenn eru 26 í rúmlega 23 stöðugildum.

Þegar Hilmar hafði sett skólann las Ástrós Rún Sigurðardóttir aðstoðarskólastjóri upp nöfn nemenda sem fylgdu kennurum sínum á kennslusvæði sín og fengu afhentar stundatöflur.

Nemendur voru glaðir á skólasetningunni og fullir tilhlökkunar að byrja í skólanum. Fyrsti kennsludagur hefst á morgun, miðvikudaginn 25. ágúst skv. stundatöflum.

Fleiri myndir frá skólasetningunni  verða settar hér inn fljótlega.