Gleðilegt nýtt ár og til hamingju með 2. áfanga

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á liðnu ári.  

Það er ánægjulegt að segja frá því að 2. áfangi skólans var afhentur sveitarfélaginu fyrir jólaleyfi. Stórglæsileg bygging sem er með heimasvæði fyrir nemendur á miðstigi og unglingastigi. Í þessum áfanga er einnig aðstaða fyrir upplýsingaver skólans (bókasafn), myndmenntastofa, náttúrufræðistofa með gróðurskála, hreyfirými, félagsaðstaða nemenda, nýsköpunarstofa og aðstaða fyrir hjúkrunarfræðing og náms- og starfsráðgjafa. 

Til að byrja með tökum við aðeins heimastofur miðstigs í notkun og önnur rými smátt og smátt.  

Samhliða því að miðstigið fari í 2. áfanga flytur 1. bekkur í aðalbyggingu skólans.

Nemendur í 1. bekk fá nýtt heimasvæði 

Fyrir jólaleyfi voru flutningar á húsgögnum og búnaði úr færanlegu kennslustofunum yfir í aðalbyggingu skólans. Í dag var starfsdagur hjá starfsmönnum sem m.a. nýttu daginn til að koma sér vel fyrir á nýjum stað.  Heimasvæði nemenda verður nú í á 1. hæð, í fyrstu stofu til hægri þegar gengið er inn eftir kennsluálmunni. Á mánudagsmorgun munu starfsmenn taka á móti nemendum 1. bekkjar í aðalbyggingu skólans en þeir eiga núna að ganga inn um aðalinngang skólans. Einnig er hægt að ganga inn frá skólalóðinni. Búið er að merkja snaga með nöfnum þeirra.  

Nýtt húsnæði fyrir nemendur miðstigs 

Síðasta kennsludag fyrir jólaleyfi hjálpuðu nemendur miðstigs starfsfólki að flytja húsgögn og búnað yfir í 2. áfanga skólans. Það ríkti sannkölluð gleði meðal nemenda og starfsmanna að vera nú komin með stór og glæsileg kennslusvæði á nýju byggingunni. Heimasvæði þeirra er á 2. hæð. 

Nemendur miðstigs eiga núna að ganga inn í skólann á nýjum stað, inngangur sunnan við aðalinnganginn. Búið er að koma fyrir snögum  í anddyrinu og merkja með nöfnum nemenda. 

Sjá nánar bréf hér sem fór heim til forráðamanna fyrir helgi.