Í hverri viku senda umsjónarkennarar fréttabréf til forráðamanna. Hér eru nokkrir punktar úr vikubréfinunum og myndir fyrir neðan.
1. árgangur
Íslenska: Þessa vikuna voru lagðir inn stafirnir Éé og Hh og unnið með þá á margvíslegan hátt. Unnið var með stafinn Éé á þann hátt að börninn skrifuðu hvað þau heita og hvað þau ætla að verða þegar að þau verða stór. Fyrirsögnin á blaðinu er Ég. Mjög skemmtilegt verkefni og gaman að sjá hvað börnunum langar til að verða þegar þau verða stór. Unnið var með bókstafinn Hh og börnin bjuggu til hest úr H.
Snillitími: Við vorum á tveimur stöðvum og unnum með stærðfræðiforrit og Book Creator
2. árgangur
Við höfum undanfarið verið að fjalla um þjóðsögur og velta fyrir okkur hvernig þær komu til. Einn nemandinn var alveg með það á hreinu að þar sem þær heita þjóðsögur þýddi það að þær væru búnar til á Íslandi og væru bara sagðar þar, önnur lönd ættu sínar eigin þjóðsögur sem gerðust þar. Vel afgreitt fannst umræddum kennara. Sumar sögurnar jaðra við að vera hryllingssögur á meðan aðrar segja frá fyndnum persónum og atvikum eins og Bakkabræðrum sem notuðu t.d. húfur til að bera myrkrið út og sólina inn. Nemendur gerðu skemmtilegar myndir úr fjórum sögum af Bakkabræðrum sem hægt er að sjá hér að neðan. Við vorum með stöðvavinnu í regnboganum á miðvikudaginn þar sem m.a. var boðið upp á að búa til gogg og puttaprjóna og má segja að gripið hafi marga nemendur gogga- og puttaprjónsæði og greinilegt að við þurfum að bjóða oftar upp á þetta.
3. árgangur
Á hverjum degi hafa allir nemendur bekkjarnins ákveðið hlutverk. Í haust komum við okkur öll saman um hvaða hlutverk væri gott að hafa og þau hafa svo þróst í gegnum veturinn. Hugmyndin um hluverkin kemur úr Jákvæðum aga. Með því að sinna okkar hlutverki látum við gott af okkur leiða. Við fáum jákvæð viðbrögð og finnum að þátttaka okkar er mikils metin. Við lærum ábyrgð og að framlag allra skiptir máli fyrir heildarstarf bekkjarins.
4. árgangur
Íslenska: Héldum áfram að vinna í verkefnahefti og ipad með nafnorð, greini nafnorða, kyn og tölu. Eflum lesskilning okkar í lesskilningshefti og erum dugleg að nýta smá tíma á hverjum degi í hljóðlestur.
Við erum að byrja að æfa okkur fyrir Litla upplestrardaginn hér í skólanum.
Halló heimur: Styrkleikar. Unnum verkefni í vinnubók um styrkleika.
5. árgangur
Lífsleikni: Haldinn var kynjaskiptur bekkjarfundur þar sem farið var yfir jákvæð samskipti og vináttu. Nemendur undirbjuggu sig fyrir viðtölin í næstu viku og fóru yfir námið sitt í skólanum.
Danska: Nemendur lærðu um litina, dagana, mánuðina og árstíðarnar á dönsku. Sett var upp dönsku hringekja með fjölbreyttum verkefnum og notuðu tölvuorðabókina Snerpu.
Snillitími: Nemendur prófuðu Minecraft Education. Þessi fyrsti tími í vinnu með forriti snérist um að læra að skrá sig inn á svæðið og lærðu kennararnir samhliða nemendum. Það verður spennandi að notast við þetta forrit í framtíðinni.