Starfsmenn Stekkjaskóli óska öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir gott samstarf á nýliðnu ári.
Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá á morgun, þriðjudaginn 4. janúar 2022. Skólarúta fyrir börnin í dreifbýlinu gengur samkvæmt áætlun. Við viljum minna foreldra og forráðamenn á að láta vita af veikindum eða öðrum leyfum.
Ný sóttvarnareglugerð tók gildi á Þorláksmessu og mun hún gilda til og með 12. janúar 2022. Breytingarnar frá þeim takmörkunum sem áður giltu snúa fyrst og fremst að starfsfólki:
- Nú mega ekki fleiri en 20 fullorðnir koma saman í hverju rými og grímuskylda er ef ekki er hægt að halda 2 m reglu. Starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma.
Gagnvart nemendum gildir eftirfarandi:
- Á öllum skólastigum miðast hámarksfjöldi barna/nemenda við 50 einstaklinga í rými.
- Blöndun milli hópa er heimil og heimilt er að fara á milli rýma.
- Leitast skal við að hafa 1 metra milli nemenda.
- Í grunnskólum þurfa nemendur ekki að bera grímur þó það sé ekki mögulegt, slíkt á einungis við í framhalds- og háskólum.
Í Stekkjaskóla er matartími nemenda þrískiptur og þar matast aldrei fleiri en 37 nemendur í senn. Jafnframt er húsnæðið okkar rúmgott og því auðvelt að halda fjarlægð í kennslustofum og á tengigangi.
Í dag var starfsdagur þar sem starfsmenn unnu að undirbúningi kennslunnar og móttöku nemenda samkvæmt gildandi reglugerð. Í kennslustofum er búið að raða upp borðum þannig að góð fjarlægð er á milli nemenda. Það var virkilega gott hljóð í starfsmönnum í dag. Jákvæðni og gleði var ríkjandi í hópnum og við hlökkum virkilega til að fá nemendur í skólann að nýju eftir jólaleyfi.
Ef eitthvað er óljóst varðandi skólastarfið sem framundan er veita stjórnendur nánari upplýsingar.