Embætti landlæknis og Almannavarnir hafa sett saman ágætar leiðbeiningar um hvernig haga skuli sóttvörnum í grunnskólum.
Þessa fyrstu daga skólaársins hafa grunnskólar sveitarfélagsins sloppið við smit. Ef smit koma upp geta þau kallað á sóttkví nemenda og starfsmanna. Í leiðbeiningum Landlæknis og Almannavarna eru kynnt ný hugtök og nýjar leiðir í því hvernig brugðist er við ef smit kemur upp í skóla.
Helsti munurinn er að nú verður ekki sjálfgefið að eins margir fari í sóttkví og verið hefur heldur er einnig horft til þess að hægt sé að viðhafa „smitgát“ með formlegum hætti. Hugtakið „einkennavarúð“ er einnig kynnt til sögunnar. Í leiðbeiningum má sjá hvernig sóttkví, smitgát og einkennavarúð verður notuð til að draga úr líkum á útbreiðslu smits.
Undanfarna daga hefur verið fundað með starfsmönnum skólans og farið yfir þessar leiðbeiningar og hvernig starfsfólk ætlar að lágmarka smithættu og nýta persónulegar smitvarnir til hins ítrasta.
Nemendur matast í þremur hópum á 1. hæð skólans. Matráðar okkar skammta matinn og eru borðin sótthreinsuð á milli hópa.
Við hvetjum forráðamenn að ítreka við börnin sína að vera dugleg að þvo sér um hendur og spritta.
Varðandi komur forráðamanna inn í skólann er grímuskylda og fjarlægð milli óskyldra fullorðinna einstaklinga þarf að vera 1 metri. Við biðjum forráðamenn að lágmarka komur sínar til okkar en þær hafa verið mjög hófstilltar fram að þessu og í góðu lagi.
Ef upp kemur smit mun smitrakningarteymið verða í sambandi við skólann og heimili hins smitaða til að afla upplýsinga um samgang þess smitaða sólarhring áður en smit greindist. Því er miklivægt að við séum alltaf vakandi fyrir því með hverjum börnin eru í leik og skóla hvern dag því á þeim grundvelli mun smitrakningarteymið taka ákvörðun.