Nemendur Stekkjaskóla sigruðu Svakalegu upplestrarkeppnina

Við fengum góðan gest í heimsókn til okkar fimmtudaginn 20. mars þegar Blær Guðmundsdóttir kom og veitti okkur viðurkenningu og bókaverðlaun fyrir að hafa unnið Svakalegu lestrarkeppnina á Suðurlandi sem haldin var síðasta haust.

Nemendur Stekkjaskóla lásu  alls 93.522 blaðsíður á einum mánuði og tryggði sér þar með titilinn að vera langbesti lestrarskóli Suðurlands 2024. Blær reiknaði út með nemendum að þetta væru 3117 blaðsíður á dag en til að skilja þessar tölur betur má gefa sér að ef meðal bók væri 100 blaðsíður væru þetta 31 bók á dag! Það væri dágóður stafli.

7. bekkur var sá bekkur á Suðurlandi sem las mest eða tæplega 24.000 blaðsíður. Þar var mikil keppnisstemning og góð samvinna.

Einn nemandi bar af og fékk fyrirliðaverðlaun og var það Ragna Fanney Róbertsdóttir í 7. bekk en hún las 3.363 blaðsíður á þessum eina mánuði. Fékk hún bók í verðlaun og skólasafnið fékk 13 bækur að gjöf og viðurkenningaskjal.

Við erum virkilega stolt af nemendahóp Stekkjaskóla og þeirri samstöðu sem nemendur sýndu til að ná þessum árangri. Við þökkum Blævi og Evu Rún fyrir að standa að þessu skemmtilega lestrarátaki.

Við óskum nemendum til hamingju með árangurinn.

Hér má sjá frétt frá Dagskránni um þetta.