Þann 13. desember fengu allir forráðamenn sent í tölvupósti fyrsta fréttabréf skólaársins. Í fréttabréfinu var sagt lauslega frá ýmsu starfi skólans síðustu vikurnar fyrir jólaleyfi. Þar má nefna vasaljósferðir, gönguferðir í Selfosskirkju, tónleikar nemenda sem læra á hljóðfæri hjá Tónlistarskóla Árnesinga, gjöf Foreldrafélagsins á endurskinsvestum til nemenda 1. bekkjar, fræðslu um netöryggi og fyrirlestur Þorgríms Þráinssonar um lestur og bækur.
Í fréttabréfinu var einnig fjallað um vináttuverkefni á milli árganga og jákvæðan aga sem er uppeldisstefna skólans. Jákvæður agi byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela í sér að horft er á orsakir hegðunar fremur en t.d. að reyna að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast. Jákvæður agi gengur út á að móta umhverfi í skólum, heimilum og vinnustöðum sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.
Fréttabréf skólans má finna efst á heimasíðunni, undir flipanum Skólinn. Sjá einnig hér.