Jákvæður agi í Stekkjaskóla
Á fyrsta starfsári Stekkjaskóla var leitast við að samræma vinnulag starfsmanna er snéri að skólabragnum, viðbrögðum við agabrotum og vinnuaðferðum svo að sýn og gildi skólans um að öllum geti liðið hér vel verði að veruleika. Markmiðið okkar er að nemendur vaxi og dafni í skólasamfélagi sem þeim líður vel í.
Eftir samvinnu starfsfólks og þátttöku í þróunarverkefni skólans á fyrsta starfsári hans, fundum við aðferð sem samræmist okkar gildum og hugmyndafræði að uppbyggingu að velferðarkennslu í Stekkjaskóla. Aðferðin nefnist Jákvæður agi.
Við upphaf annars starfsárs skólans, var því ákveðið að taka upp og innleiða Jákvæðan aga í Stekkjaskóla, en það er uppeldis- og samskiptaaðferð sem byggir á gagnkvæmri virðingu og samstarfi. Uppeldisstefnan Jákvæður agi byggir á sjálfsstjórnarkenningum, sem fela í sér að horft er á orsakir hegðunar fremur en t.d. að reyna að breyta hegðuninni með umbun og refsingu eins og lengi hefur tíðkast. Jákvæður agi gengur út á að móta umhverfi í skólum, heimilum og vinnustöðum sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu.
Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni
- Meginreglur Jákvæðs aga hjálpa til við að byggja samband væntumþykju og virðingar og þær auðvelda að finna lausnir til frambúðar.
- Jákvæður agi byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum.
Börn verða ábyrgðarfull ef þau fá tækifæri til að þroska félagsfærni sína í gegnum lífsleikni í andrúmslofti virðingar, góðvildar og festu. Jákvæður agi byggir á því að börn þroski og efli með sér færni í að finna lausnir og setja sér mörk í samvinnu við fullorðna.