Tímabil 2: 13. október - 28. nóvember
Nemendur í 5.-6. bekk velja fimm sinnum yfir veturinn einhverja valgrein sem tengist áhugasviði.
Ásamt þessum valgreinum verða allir nemendur í hefðbundnum list- og verkgreinum.
Val
Er kennt á miðvikudögum kl. 12:30-13:50
01 Pappamassa fuglagerð
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Áslaug Tóka Gunnlaugsdóttir
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Hér fá nemendur að finna mynd af fugli sem þeim langar að gera í þrívídd úr pappamassa og mála. Ef tími gefst er hægt að gera fl. með pappamassa. Ef tími gefst verður sett upp fuglasýning sem hluti af námsmati.
Hæfniviðmið
- Unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk.
- Notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun.
- Byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu.
Námsmat
Virkni og þátttaka í tímum.

02 Rafíþróttir
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Leifur Viðarsson
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Við ætlum að spila alls konar tölvuleiki, bæði gamla og nýja. Læra að vinna saman og kljást við alls konar þrautir og áskoranir. Við munum líka hreyfa okkur og liðka fingur og hendur.
Hæfniviðmið
- Efla félagsþroska og gagnrýna hugsun.
- Samvinna og lausnamiðuð hugsun.
- Netsiðferði og samskiptahæfni.
- Líkamlegar æfingar, snerpa og vöðvaminni.
Námsmat
Símat og leiðsagnarmat þar sem hæfniviðmið eru metin. Einnig er horft til vinnusemi, frumkvæðis, vandvirkni, umgengni og ábyrgðar.

03 Skreytum skólann
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Elín Anna Lárusdóttir
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Nú styttist í Hrekkjavökuna og jólin eru handan við hornið. Í þessu vali ætlum við að búa til alls konar skraut fyrir skólann okkar, bæði tengt Hrekkjavökunni og jólunum. Markmiðið er að skólinn okkar fái flottan hátíðarbúning.
Markmið:
- Skapandi hugsun.
- Vönduð og fíngerð vinnubrögð.
- Klára verkefni frá hugmynd að tilbúnu verki.
Námsmat
Leiðsagnarmat, sjálfsmat og virkni í tímum.

04 Danssmiðja
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Kristín Hanna Guðmundsdóttir
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Í danssmiðju munum við læra að vinna með spuna, semja dansrútínur, læra dansspor og danstækni. Danssmiðjan hentar bæði fyrir byrjendur og framhaldsnemendur í dansi. Kristín Hanna kemur inn til okkar sem stundakennari en hún er sjálf nemandi við JSB dansskólann og kennir einnig þar og í Dansakademíunni.
Nemendur verða að hafa æfingaföt meðferðis, t.d. leggings, stuttbuxur og bol.
Hæfniviðmið
- Að nemendur þrói sköpunarhæfileika sína.
- Að nemendur læri spuna.
- Að nemendur búi til dansrútínu.
- Að nemendur hreyfi sig í takt við tónlist.
- Að nemendur sýni sjálfstæði og séu tilbúin að koma sínum hugmyndum á framfæri og fara eftir leiðbeiningum kennara.
Námsmat
Virkni og þátttaka í tímum og verkefnaskil.

05 Límmiðar og fatavínyll
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Hildur Þorkelsdóttir
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Nemendur kynnast eiginleikum vinyls sem við notum til að setja texta / myndir á efni. Lærum hvernig við getum notað vinyl til að búa til skilti sem og hvernig við gerum límmiða til að merkja ýmsa hluti.
Val verður um verkefni t.d púðar, litlar töskur eða pokar. Allir þurfa að gera eitt verkefni þar sem notaður er strauvinyll og eitt verkefni þar sem notaður verður límmiðavinyll.
Nemendur geta komið með fatnað að heiman og sett strauvinyl á fatnaðinn.
Hæfniviðmið:
- Þekkir eiginleika vinyls í textíl og hvaða möguleika það gefur.
- Getur unnið með hugmynd frá skissu að fullgerðum hlut.
Námsmat
Símat og leiðsagnarmat þar sem hæfniviðmið eru metin ásamt vinnusemi, frumkvæði, vandvirkni, umgengni og ábyrgð eru metin.

06 Borðtennis
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Heiðar Pétur Halldórsson
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Farið verður yfir grunnatriðin og helstu reglur í borðtennis. Þegar við spilum borðtennis lærum við líka um hvernig á að bera okkur vel í leik, vera virk og skemmtileg í hóp.
Borðtennis er frábær leið til að hreyfa sig, bæta færni, hraða og samhæfingu.
Við munum læra grunnreglurnar og æfa okkur saman.
Markmið:
- Að nemendur kynnist borðtennis.
- Læri helstu grip á spaða.
- Læri reglur í borðtennis.
- Sýni sjálfstæði og taki þátt.
Námsmat
Þátttaka og virkni nemenda.

07 Jóga, tónar og teygjur
Tímafjöldi: 1x2 kennslustundir í viku í 7 vikur
Kennari: Guðný Lára Gunnarsdóttir
Hámarksfjöldi: 12 nemendur
Hér fáum við tækifæri til að prófa jóga, slökun, núvitund og tónheilun í skólanum – og þetta er alls ekkert venjulegt líkamsræktarprógram! Engin keppni, enginn samanburður. Bara þú, líkamin þinn og andardrátturinn. Við byrjum rólega, hreyfum okkur aðeins, æfum öndun, og slökum svo vel á. Stundum notum við tónlist, stundum gerum við létta leiki, stundum bara hlustum við. Þú mátt vera eins og þú ert – og taka þátt á þínum forsendum.
Við ætlum að:
- Hreyfa okkur – með stöðum sem kenna okkur jafnvægi, styrk og mýkt
- Læra öndunartækni sem getur róað hugann og gefið okkur betri einbeitingu
- Prófa hugleiðslu og slökun – bara liggja, hlusta og vera
- Leika okkur í skemmtilegum leikjum!
- Upplifa tónlist í líkamanum – með gongi, söngskálum frá Tíbet, Indjánaflautum og fleiru spennandi.
- Finna leiðir til að takast á við stress og álag
- Og kannski það mikilvægasta: finna ró og tengjast sjálfum sér
Hvað segja börn sem hafa prufað Jóga?
„Ég hélt að þetta væri leiðinlegt, en þetta var ótrúlega næs.“
„Ég fattaði loksins hvernig maður róar hugann.“
„Ég fann fyrir styrk sem ég vissi ekki að ég hefði.“
Hæfniviðmið:
- Aukin lífsgæði, sjálfstraust og vellíðan
- Kynnist menningarlegum áhrifum tónlistar og jóga.
- Aukinn skilningur á hvernig jóga hefur heildræn áhrif á líkama og sál
- Aukin færni í að framkvæma grunnæfingar í jóga með tilliti til öndunar, jafnvægis og liðleika.
- Aukinn skilningur á áhrifum tónlistar og hreyfingar á eigin tilfinningar og líðan
Námsmat
Sjálfsmat nemenda og símat kennara þar sem litið verður til þátttöku og virkni nemenda.

Ef þið hafið einhverjar athugasemdir eða spurningar þá vinsamlegast sendið línu á leifur@stekkjaskoli.is